Um Passíusálmaútgáfu

Einar Sigurðsson

Um útgáfu Landsbókasafns Íslands – Háskólabóksafns 
á eiginhandarriti Hallgríms Péturssonar

Í hálfa þriðju öld hefur Hallgrímur lagt fyrstu hendingarnar á varir barnsins og Passíusálmarnir verið lagðir á brjóst flestra Íslendinga þegar líkaminn var nár. Vaggan og gröfin hafa helgast af stefjum hans og munu enn gera meðan kristni helst í landinu.

Sigurbjörn Einarsson biskup í formála Passíusálma 1943

Eiginhandarrit Hallgríms Péturssonar að Passíusálmunum, hið eina sem til er, er varðveitt í Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni. Það er einn mesti dýrgripur safnsins. Á árinu 1995 veitti Þjóðhátíðarsjóður safninu styrk til að láta gera við handritið, en það þurfti aðhlynningar við. Fjarlægð voru svo sem kostur var ummerki miður góðra viðgerða frá síðustu öld. Þá var og handritið tekið úr lúnu bandi frá sama tíma, og verður það bundið inn að nýju með þeim hætti að sem best verði til verndar handritinu og skilji ekki eftir sig ummerki þótt síðari tíma viðhorf kunni að kalla til þess að bandið verði fjarlægt aftur.

Þetta merka handrit hefur einu sinni verið ljósprentað áður – í Lithoprent árið 1946. Sú hugmynd kom upp fljótlega eftir að farið var að gera handritinu til góða að ljósprenta það á nýjan leik, enda fyrri útgáfa löngu uppseld. Og þótt fyrrgreind ljósprentun sé góð telja menn sig geta gert nokkru betur með þeim aðferðum sem nú eru tiltækar, auk þess sem vissir staðir í handritinu koma betur fram að viðgerð lokinni en áður.

Sú ætlun að gefa handritið út aftur ljósprentað naut einnig stuðnings af því að árið 1996 var minningar vert í mörgum skilningi: Í fyrsta lagi fagnaði Landsbókasafn þá 150 ára afmæli handritadeildar. Í öðru lagi voru þrjár aldir liðnar síðan Passíusálmarnir komu fyrst út einir ljóða í bók. Það var í merkri útgáfu Þórðar Þorlákssonar biskups í Skálholti. Kveður hann þar fyrstur manna upp úr um gildi Passíusálmanna á þann veg sem síðar átti eftir að verða dómur þjóðarinnar. Í þriðja lagi hafa Passíusálmarnir ávallt komið út þegar fjögur ár lifa hverrar aldar, þ.e. 1696, 1796 og 1896. Í fjórða lagi var á árinu 1996 hálf öld liðin síðan sálmarnir voru fyrst ljósprentaðir eins og áður hefur komið fram. Loks er þess einnig að minnast að á árinu 1996 voru tíu ár síðan vígð var hin mikla kirkja sem reist var í minningu Passíusálmaskáldsins á Skólavörðuholti í Reykjavík.

Stafréttur texti eiginhandarrits Hallgríms að Passíusálmunum kom út á vegum Hins íslenska fræðafélags í Kaupmannahöfn árið 1924 í umsjá Finns Jónssonar, en án þess að eftirmynd handritsins fylgdi með til hliðsjónar. Í útgáfu Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns er hinn stafrétti texti birtur við hlið eftirmyndar handritsins og hann látinn standast á við það línu fyrir línu, en neðanmáls er birtur orðamunur sem rekja má til Hallgríms sjálfs. Því til viðbótar eru sálmarnir prentaðir sem lestexti með nútímastafsetningu og þá skipað í vers og ljóðlínur. Textinn birtist því í þremur gerðum í einni og sömu opnunni, þannig að lesendur geta fetað sig hvora leiðina sem er – frá handritinu til samtímans eða öfugt, þ.e. frá lestextanum yfir í hinn stafrétta, og með stuðningi hans fylgt penna Hallgríms í handritinu og numið þannig hvernig hann festi hið máttuga trúarljóð sitt á blað, grunlaus um það hverrar hylli sálmarnir áttu eftir að njóta með þjóðinni.

Eins og kunnugt er hafa Passíusálmarnir komið oftar út en nokkurt annað rit á Íslandi. Þeir voru fyrst gefnir út árið 1666 á Hólum, en bæði þá og næstu þrjú skipti með öðru efni. Síðan hafa þeir oftast komið út einir sér í bók, en í nokkur skipti í sálmabókum eða fræðiritum. Skrár um útgáfurnar hafa birst nokkrum sinnum, en engin þeirra er samin með kröfur bókfræðinnar í fyrirrúmi. Segja má að það standi engum nær en þjóðbókasafninu að gera Passíusálmunum skil bókfræðilega. Því er það að útgáfu Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns fylgir skrá um fyrri útgáfur og prentanir sálmanna, og telst svo til að sú útgáfa sé hin átttugasta og þriðja, auk þess sem sálmarnir hafa nokkrum sinnum birst í þýðingum á erlend mál. Skráin er gerð með stuðningi af ritunum sjálfum. Hverri færslu fylgja skýringar eftir því sem efni standa til, og þær eru alloft studdar myndum af viðeigandi stöðum í hinum prentuðu útgáfum. Loks er birt skrá um þá einstaklinga sem lesið hafa Passíusálmana í útvarp á páskaföstu, allt frá árinu 1944 er tekið var að flytja sálmana með þeim hætti.

Margir áttu þátt í að gera útgáfu Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns að veruleika. Umsjón með texta Passíusálmanna höfðu Ögmundur Helgason, Skúli Björn Gunnarsson og Eiríkur Þormóðsson. Um bókfræði Passíusálmanna fjallaði Ólafur Pálmason. Ljósmyndari var Helgi Braga, hönnun annaðist Torfi Jónsson en umbrot var í höndum Hermóðs Sigurðssonar. Hallgrímskirkja í Reykjavík, Jöfnunarsjóður sókna, héraðsnefndir prófastsdæma landsins og Menningarsjóður styrktu útgáfuna.

© Einar Sigurðsson . Úr útgáfu Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns (1996)