Píslarsaga

Herra Sigurbjörn Einarsson biskup tók saman úr Guðspjöllunum.

Hver kafli samsvarar Passíusálmi, eins og tölurnar vísa til

1.

Útganga Jesú í grasgarðinn

Þegar þeir höfðu sungið lofsönginn, fór Jesús út með lærisveinum sínum til Olíufjallsins eins og hann var vanur, yfir um lækinn Kedron. Og Jesús sagði við þá: „Á þessari nóttu munuð þér allir hneykslast á mér, því að ritað er: Ég mun slá hirðinn, og sauðirnir munu tvístrast. En eftir að ég er upp risinn, mun ég fara á undan yður til Galíleu.“ Þá sagði Pétur: „Þótt allir hneykslist, geri ég það aldrei.“ Jesús sagði við hann: „Sannlega segi ég þér: Nú í nótt, áður en hani galar tvisvar, muntu þrisvar afneita mér.“ En Pétur kvað enn fastar að: „Þó að ég ætti að deyja með þér, þá mun ég aldrei afneita þér.“ Eins töluðu þeir allir.

 

2.

Kvöl Krists í grasgarðinum

Þeir koma til staðar, er heitir Getsemane. Þar var grasgarður, sem Jesús gekk inn í og lærisveinar hans. Júdas, sem sveik hann, þekkti líka þennan stað, því Jesús og lærisveinar hans höfðu oft komið þar saman. Og Jesús segir við lærisveina sína: „Setjist hér, meðan ég biðst fyrir; biðjið að þér fallið ekki í freistni.“ Hann tók með sér þá Pétur, Jakob og Jóhannes. Og hann vék frá þeim svo sem steinsnar. Og nú setti að honum ógn og angist. Hann segir við þá: „Sál mín er hrygg allt til dauða. Bíðið hér og vakið.“ Þá gekk hann lítið eitt áfram, féll til jarðar og bað, að sú stund færi fram hjá sér, ef verða mætti. Hann sagði: „Abba, faðir! allt megnar þú. Tak þennan kaleik frá mér! Þó ekki sem ég vil, heldur sem þú vilt.“

 

3.

Dauðastríð Drottins í grasgarðinum

Hann kemur aftur og finnur þá sofandi. Þá sagði hann við Pétur: „Símon, sefur þú? Þér gátuð þá ekki vakað með mér eina stund? Vakið og biðjið, að þér fallið ekki í freistni: Andinn er reiðubúinn, en holdið er veikt.“ Aftur vék hann brott annað sinn og bað: „Faðir minn, ef eigi verður hjá því komist, að ég drekki þennan kaleik, þá verði þinn vilji.“ Þegar hann kom aftur, fann hann þá enn sofandi, því drungi var á augum þeirra. Og ekki vissu þeir, hvað þeir ættu að segja við hann. Þá fór hann enn frá þeim og baðst fyrir þriðja sinn með sömu orðum og fyrr. Þá birtist honum engill af himni, sem styrkti hann. Og hann komst í dauðans angist og baðst enn ákafar fyrir, en sveiti hans varð eins og blóðdropar, er féllu á jörðina.

 

4.

Samtal Krists við lærisveinana

Hann stóð upp frá bæn sinni, kom til lærisveinanna og fann þá sofandi, örmagna af hryggð. Og hann sagði við þá: „Sofið þér enn og hvílist? Nú er nóg. Stundin er komin. Mannssonurinn er framseldur í hendur syndugra manna. Standið upp, förum! Sá er í nánd, er mig svíkur.“

 

5.

Koma Gyðinga í grasgarðinn

Um leið, meðan hann var enn að tala, kemur Júdas, einn þeirra tólf, og með honum flokkur manna frá æðstu prestunum, fræðimönnunum og öldungunum, og höfðu þeir sverð og barefli og blys. Júdas hafði sagt þeim þetta til marks: „Sá sem ég kyssi; hann er það. Takið hann höndum og færið hann brott í tryggri vörslu.“ Jesús vissi allt, sem yfir hann mundi koma, gekk fram og sagði við þá: „Að hverjum leitið þér?“ Þeir svöruðu honum: „Að Jesú frá Nasaret.“ Hann segir við þá: „Ég er hann.“ En Júdas, sem sveik hann stóð líka hjá þeim. Þegar Jesús sagði við þá: „Ég er hann,“ hopuðu þeir á hæl og féllu til jarðar.

 

6.

Koss Júdasar og handtaka Drottins

Þá spurði hann þá aftur: „Að hverjum leitið þér?“ Þeir svöruðu: „Að Jesú frá Nasaret.“ Jesús mælti: „Ég sagði yður, að ég væri hann. Ef þér leitið mín, þá lofið þessum að fara.“ Þannig rættist orð hans, er hann hafði mælt: „Engum glataði ég af þeim, sem þú gafst mér.“ Júdas gekk beint að Jesú og sagði: „Heill, rabbí!“ og kyssti hann. Jesús sagði við hann: „Vinur, hví ertu hér? Júdas, svíkur þú mannssoninn með kossi?“ En hinir lögðu hendur á hann og tóku hann.

 

7.

Vörn Péturs og sár Malkusar

Þeir sem með honum voru, sáu að hverju fór og sögðu: „Herra, eigum vér ekki að bregða sverði?“ Símon Pétur hafði sverð, brá því og hjó til þjóns æðsta prestsins og sneið af honum hægra eyrað. Þjónninn hét Malkus. Jesús sagði við Pétur: „Slíðra sverð þitt! Allir, sem sverði bregða, munu fyrir sverði falla. Sting sverðinu í slíðrin. Á ég ekki að drekka kaleikinn, sem faðirinn hefur fengið mér? Hyggur þú, að ég geti ekki beðið föður minn að senda mér nú meira en tólf sveitir engla? Hvernig ættu þá ritningarnar að rætast, sem segja, að þetta eigi svo að verða?“ Og hann snart eyra Malkusar og læknaði hann.

 

8.

Prédikun Krists fyrir Gyðingum

Á þeirri stundu sagði Jesús við flokkinn: „Eruð þér að fara að mér með sverðum og bareflum eins og gegn ræningja til að handtaka mig? Daglega sat ég í helgidóminum og kenndi, og þér tókuð mig ekki höndum. En allt verður þetta til þess, að ritningar spámannanna rætist. Þetta er yðar tími og máttur myrkranna.“

 

9.

Flótti lærisveinanna

Þá yfirgáfu hann allir lærisveinar hans og flýðu. En maður nokkur ungur fylgdist með honum. Hann hafði línklæði eitt á berum sér. Þeir vildu taka hann, en hann lét eftir línklæðið og flýði nakinn.

 

10.

Fyrsta rannsókn Kaífasar

Hermennirnir, foringinn og varðmenn Gyðinga tóku nú Jesú höndum og bundu hann og færðu hann fyrst til Annasar. Hann var tengdafaðir Kaífasar, sem var æðsti prestur það ár. En Kaífas var sá sem gefið hafði Gyðingum það ráð, að betra væri, að einn maður dæi fyrir lýðinn. Þá sendi Annas hann bundinn til Kaífasar æðsta prests, en þar voru saman komnir fræðimennirnir og öldungarnir. Nú spurði æðsti presturinn Jesú um lærisveina hans og kenningu hans. Jesús svaraði honum: „Ég hef talað opinskátt í áheyrn heimsins. Ég hef ætíð kennt í samkundunni og í helgidóminum, þar sem allir Gyðingar safnast saman, en í leynum hef ég ekkert talað. Hví spyr þú mig? Spurðu þá, sem heyrt hafa, hvað ég hef við þá talað. Þeir vita hvað ég hef sagt.“ Þegar Jesús sagði þetta, rak einn varðmaður, sem þar stóð, honum löðrung og sagði: „Svarar þú æðsta prestinum svona?“ Jesús svaraði honum: „Hafi ég illa mælt, þá sanna þú, að svo hafi verið, en hafi ég rétt að mæla, hví slær þú mig?“

 

11.

Afneitun Péturs

Símon Pétur fylgdi Jesú og annar lærisveinn. Sá lærisveinn var kunnugur æðsta prestinum og fór með Jesú inn í hallargarð æðsta prestsins. En Pétur stóð utan dyra. Hinn lærisveinninn, sem var kunnugur æðsta prestinum, kom út aftur, talaði við þernuna, sem dyra gætti, og fór inn með Pétur. Menn höfðu kveikt eld í miðjum garðinum og sátu við hann, og Pétur settist meðal þeirra. Þar kom að honum þerna ein og sagði: „Þú varst líka með Jesú frá Galileu.“ Því neitaði hann svo allir heyrðu og sagði: „Ekki veit ég né skil, hvað þú ert að fara.“ Og hann gekk út í forgarðinn, en þá gól hani. Hann gekk út í fordyrið. Þar sá hann önnur þerna og sagði við þá, sem þar voru: „Þessi var með Jesú frá Nasaret.“ En hann neitaði sem áður og sór þess eið, að hann þekkti ekki þann mann. Og að liðinni um það bil einni stund fullyrti enn annar þetta og sagði: „Víst var þessi líka með honum, enda segir málfæri þitt til þín.“ Þá sagði einn af þjónum æðsta prestsins, frændi þess, sem Pétur sneið af eyrað: „Sá ég þig ekki í grasgarðinum með honum?“ En hann sór og sárt við lagði: „Ég þekki ekki þennan mann, sem þér talið um.“ Um leið gól hani annað sinn:.

 

12.

Iðrun Péturs

Drottinn vék sér við og leit til Péturs. Og Pétur minntist þess, er Jesús hafði mælt: „Áður en hani galar tvisvar, muntu þrisvar afneita mér.“ Og hann gekk út og grét beisklega.

 

13.

Falsvitnin og dómur Kaífasar

Æðstu prestarnir og allt ráðið leituðu vitnis gegn Jesú til að geta líflátið hann, en fundu eigi. Margir báru þó ljúgvitni gegn honum, en framburði þeirra bar ekki saman. Þá stóðu nokkrir upp og báru ljúgvitni gegn honum og sögðu: „Vér heyrðum hann segja: ,Ég mun brjóta niður musteri þetta, sem með höndum er gjört, og reisa annað á þrem dögum, sem ekki er með höndum gjört.‘“ En ekki bar þeim heldur saman um þetta. Þá stóð æðsti presturinn upp og spurði Jesú: „Svarar þú því engu, sem þessir vitna gegn þér?“ En Jesús þagði. Þá sagði æðsti presturinn við hann: „Ég særi þig við lifandi Guð, segðu oss: Ertu Kristur, sonur hins blessaða?“ Jesús svarar honum: „Ég er sá. En ég segi yður: Upp frá þessu munuð þér sjá Mannssoninn sitja til hægri handar máttarins og koma á skýjum himins.“ Þá reif æðsti presturinn klæði sín og sagði: „Hann guðlastar, hvað þurfum vér nú framar votta við? Þér heyrðuð guðlastið. Hvað líst yður?“ Þeir svöruðu: „Hann er dauðasekur.“

 

14.

Þjónarnir hæða Krist

En þeir menn, sem gættu Jesú, hæddu hann, hræktu í andlit honum og slógu hann með hnefunum, en aðrir börðu hann með stöfum. Þeir huldu andlit hans og sögðu: „Spáðu nú, hver það var, sem sló þig.“ Og marga aðra svívirðu sögðu þeir við hann.

 

15.

Ráðstefna prestanna

Þegar dagur rann, kom öldungaráð lýðsins saman, bæði æðstu prestar og fræðimenn, og gerðu samþykkt gegn Jesú, að hann skyldi af lífi tekinn, og létu færa hann fyrir ráðsfund sinn. Þeir sögðu: „Ef þú ert Kristur, þá seg oss það.“ En hann sagði við þá: „Þótt ég segi yður það, munuð þér ekki trúa, og ef ég spyr yður, svarið þér ekki. En upp frá þessu mun Mannssonurinn sitja til hægri handar Guðs kraftar.“ Þá spurðu þeir allir: „Ert þú þá sonur Guðs?“ Og hann sagði við þá: „Þér segið, að ég sé sá.“ En þeir sögðu: „Hvað þurfum vér nú framar vitnis við? Vér höfum sjálfir heyrt það af munni hans.“ Þá stóð upp allur skarinn og nú var Jesús fluttur frá Kaífasi til hallar landshöfðingans og færður fyrir Pílatus.

 

16.

Iðrun Júdasar og dauði

Þegar Júdas, sem sveik hann, sá, að hann var dæmdur sekur, iðraðist hann og skilaði æðstu prestunum og öldungunum silfurpeningunum þrjátíu og mælti: „Ég drýgði synd, ég sveik saklaust blóð.“ Þeir sögðu: „Hvað varðar oss um það? Það er þitt að sjá fyrir því.“ Hann fleygði þá silfrinu inn í musterið og hélt brott. Síðan fór hann og hengdi sig.

 

17.

Akur leirkerasmiðsins

Æðstu prestarnir tóku silfrið og sögðu: „Ekki má láta það í guðskistuna, því þetta eru blóðpeningar.“ Og þeir urðu ásáttir um að kaupa fyrir þá leirkerasmiðsakurinn til grafreits handa útlendingum. Þess vegna kallast hann enn í dag Blóðreitur. Þá rættist það, sem sagt var fyrir munn Jeremía spámanns: „Þeir tóku silfurpeningana þrjátíu, það verð, sem sá var metinn á, er til verðs var lagður af Ísraels sonum, og keyptu fyrir þá leirkerasmiðsakurinn eins og Drottinn hafði fyrir mig lagt.“

 

18.

Fyrsta ákæra Gyðinga fyrir Pílatusi

Gyðingar fóru ekki sjálfir inn í höllina, svo að þeir saurguðust ekki, heldur mættu neyta páskamáltíðar. Pílatus kom út til þeirra og.sagði: „Hvaða ákæru berið þér fram gegn þessum manni?“ Þeir svöruðu: „Ef þetta væri ekki illvirki, hefðum vér ekki selt hann þér í hendur.“ Pílatus segir við þá: „Takið þér hann og dæmið hann eftir yðar lögum.“ Gyðingar svöruðu:. „Oss leyfist ekki að taka neinn af lífi.“ Þannig rættist orð Jesú, þegar hann gaf til kynna, með hvaða hætti hann átti að deyja. Þeir tóku að ákæra hann og sögðu: „Vér höfum komist að raun um, að þessi maður leiðir þjóð vora afvega, hann bannar að gjalda keisaranum skatt og segist sjálfur vera Kristur, konungur.“

 

19.

Játning Krists fyrir Pílatusi

Pílatus gekk þá aftur inn í höllina, kallaði Jesú fyrir sig og sagði við hann: „Ert þú konungur Gyðinga?“ Jesús svaraði: „Mælir þú þetta af sjálfum þér, eða hafa aðrir sagt þér frá mér?“ Pílatus svaraði: „Er ég þá Gyðingur? Þjóð þín og æðstu prestarnir hafa selt þig mér í hendur. Hvað hefur þú gjört?“ Jesús svaraði: „Mitt ríki er ekki af þessum heimi. Væri mitt ríki af þessum heimi, hefðu þjónar mínir barist, svo ég yrði ekki framseldur Gyðingum. En nú er ríki mitt ekki þaðan.“ Þá segir Pílatus við hann: „Þú ert þá konungur?“ Jesús svaraði: „Rétt segir þú. Ég er konungur. Til þess er ég fæddur og til þess er ég kominn í heiminn, að ég beri sannleikanum vitni. Hver sem er af sannleikanum, heyrir mína rödd.“ Pílatus segir við hann: „Hvað er sannleikur?“

 

20.

Önnur ákæra Gyðinga fyrir Pílatusi

Að svo mæltu gekk hann aftur út til Gyðinga og sagði við þá: „Ég finn enga sök hjá honum.“ Æðstu prestarnir og öldungarnir báru á hann sakir, en hann svaraði engu. Þá spurði Pílatus hann: „Svarar þú engu? Heyrir þú ekki, hve mjög þeir vitna gegn þér?“ En hann svaraði honum ekki, engu orði hans; og undraðist landshöfðinginn mjög. En þeir urðu því ákafari og sögðu: „Hann æsir upp lýðinn með því, sem hann kennir í allri Júdeu, hann byrjaði í Galíleu og er nú kominn hingað.“ Þegar Pílatus heyrði þetta, spurði hann, hvort maðurinn væri Galílei. Og er hann varð þess vís, að hann var úr umdæmi Heródesar, sendi hann hann til Heródesar, er þá var og í Jerúsalem á þeim dögum.

 

21.

Forvitni Heródesar

En Heródes varð næsta glaður, er hann sá Jesú, því hann hafði lengi langað að sjá hann, þar eð hann hafði heyrt frá honum sagt. Vænti hann nú að sjá hann gjöra eitthvert tákn. Hann spurði Jesú á marga vegu, en hann svaraði engu. Æðstu prestarnir og fræðimennirnir stóðu þar og ákærðu hann harðlega. En Heródes óvirti hann og spottaði ásamt hermönnum sínum, lagði yfir hann skínandi klæði og sendi hann aftur til Pílatúsar. Á þeim degi urðu þeir Heródes og Pílatus vinir, en áður var fjandskapur með þeim.

 

22.

Gyðingar hrópa: Krossfestu hann

Pílatus kallaði nú saman æðstu prestana, höfðingjana og fólkið og mælti við þá: „Þér hafið fært mér þennan mann og sagt hann leiða fólkið afvega. Nú hef ég yfirheyrt manninn í yðar viðurvist, en enga þá sök fundið hjá honum, er þér ákærið hann um. Ekki heldur Heródes, því hann sendi hann aftur til vor. Ljóst er, að hann hefur ekkert það drýgt, er dauða sé vert. Ætla ég því að hirta hann og láta lausan.“ En á hátíðinni var hann vanur að gefa þeim lausan einn bandingja, þann er þeir báðu um. Maður að nafni Barabbas var þá í böndum ásamt upphlaupsmönnum. Höfðu þeir framið manndráp í upphlaupinu. Sem þeir nú voru saman komnir, sagði Pílatus við þá: „Hvorn viljið þér, að ég gefi yður lausan, Barabbas eða Jesú, sem kallast Kristur?“ Hann vissi, að þeir höfðu fyrir öfundar sakir framselt hann. Meðan Pílatus sat á dómstólnum, sendi kona hans til hans með þessi orð: „Láttu þennan réttláta mann vera, þungir hafa draumar mínir verið í nótt hans vegna.“ En æðstu prestarnir og öldungarnir fengu múginn til að biðja um Barabbas, en að Jesús yrði deyddur. Landshöfðinginn spurði: „Hvorn þeirra tveggja viljið þér, að ég gefi yður lausan?“ Þeir sögðu: „Barabbas.“ Pílatus spyr: „Hvað á ég þá að gjöra við Jesú, sem kallast Kristur?“ Þeir segja allir: „Krossfestu hann.“ Í þriðja sinn sagði Pílatus við þá: „Hvað illt hefur þá þessi maður gjört? Enga dauðasök hef ég fundið hjá honum. Ætla ég því að hirta hann og láta hann lausan.“ En þeir æptu á móti: „Krossfestu, krossfestu hann.“ Þeir sóttu á með ópi miklu og heimtuðu, að hann yrði krossfestur. Og hróp þeirra tóku yfir.

 

23.

Kristur húðstrýktur

Þá lét Pílatus taka Jesú og húðstrýkja hann.

 

24.

Kristur þyrnum krýndur

Hermenn landshöfðingjans fóru nú með hann inn í höllina og söfnuðu um hann allri hersveitinni. Þeir afklæddu hann og færðu hann í skarlatsrauða kápu, fléttuðu þyrnikórónu og settu á höfuð honum, en reyrsprota í hægri hönd hans. Síðan féllu þeir á kné fyrir honum og höfðu hann að háði og sögðu: „Heill þú, konungur Gyðinga!“ Og þeir slógu höfuð hans með reyrsprota og hræktu á hann, féllu á kné og hylltu hann.

 

25.

Sjáið manninn!

Pílatus gekk aftur út fyrir og sagði við þá: „Nú leiði ég hann út til yðar, svo að þér skiljið, að ég finn enga sök hjá honum.“ Jesús kom þá út fyrir með þyrnikórónuna og í purpurakápunni. Pílatus segir við þá: „Sjáið manninn!“ Þegar æðstu prestarnir og verðirnir sáu hann, æptu þeir: „Krossfestu, krossfestu!“ Pílatus sagði við þá: „Takið þér hann og krossfestið. Ég finn enga sök hjá honum.“ Gyðingar svöruðu: „Vér höfum lögmál, og samkvæmt lögmálinu á hann að deyja, því hann hefur gjört sjálfan sig að Guðs syni.“

 

26.

Samtal Krists og Pílatusar

Þegar Pílatus heyrði þessi orð, varð hann enn hræddari. Hann fór aftur inn í höllina og segir við Jesú: „Hvaðan ertu?“ En Jesús veitti honum ekkert svar. Pílatus segir þá við hann: „Viltu ekki tala við mig? Veistu ekki, að ég hef vald til að láta þig lausan, og ég hef vald til að krossfesta þig?“ Jesús svaraði: “Þú hefðir ekkert vald yfir mér, ef þér væri ekki gefið það að ofan. Fyrir því ber sá þyngri sök, sem hefur selt mig þér í hendur.“ Eftir þetta reyndi Pílatus enn að láta hann lausan. En Gyðingar æptu: „Ef þú lætur hann lausan, ert þú ekki vinur keisarans. Hver sem gjörir sjálfan sig að konungi, rís á móti keisaranum.“

27.

Samtal Gyðinga og Pílatusar

Þegar Pílatus heyrði þessi orð, leiddi hann Jesú út og settist í dómstólinn á stað þeim, sem nefnist Steinhlað, á hebresku Gabbata. Þá var aðfangadagur páska. Hann sagði við Gyðinga: „Sjáið þar konung yðar!“ Þá æptu þeir: „Burt með hann! Burt með hann! Krossfestu hann!“ Pílatus segir við þá: „Á ég að krossfesta konung yðar?“ Æðstu prestarnir svöruðu: „Vér höfum engan konung nema keisarann.“

 

28.

Handþvottur Pílatusar

Nú sér Pílatus, að hann fær ekki að gjört, en ólætin aukast. Hann tók vatn, þvoði hendur sínar frammi fyrir fólkinu og mælti: „Sýkn er ég af blóði þessa manns! Svarið þér sjálfir fyrir!“ Og allur lýðurinn sagði: „Komi blóð hans yfir oss og yfir börn vor!“

 

29.

Dómur Pílatusar

En með því að Pílatus vildi gjöra fólkinu til hæfis, gaf hann þeim Barabbas lausan, sem varpað hafði verið í fangelsi fyrir upphlaup og manndráp, en Jesú framseldi hann til krossfestingar.

 

30.

Krossburður Krists

Þegar þeir höfðu spottað hann, færðu þeir hann úr purpuraskikkjunni og í hans eigin klæði. Þá leiddu þeir hann út til að krossfesta hann. En maður nokkur átti leið þar hjá og var að koma utan úr sveit. Hann neyða þeir til að bera kross Jesú. Það var Símon frá Kýrene, faðir þeirra Alexanders og Rúfusar. Þeir lögðu krossinn á hann, að hann bæri hann eftir Jesú.

 

31.

Prédikun Krists fyrir konunum

En honum fylgdi mikill fjöldi fólks og kvenna, er hörmuðu hann og grétu. Jesús sneri sér að þeim og mælti: „Jerúsalemsdætur, grátið ekki yfir mér, en grátið yfir sjálfum yður og börnum yðar. Því þeir dagar koma, er menn munu segja: Sælar eru óbyrjur og þau móðurlíf, er aldrei fæddu, og þau brjóst, sem engan nærðu. Þá munu menn segja við fjöllin: Hrynjið yfir oss! og við hálsana: Hyljið oss!“

 

32.

Hið visna og hið græna tré

„Því að sé þetta gjört við hið græna tréð, hvað mun þá verða um hið visna?“

 

33.

Krossfesting Krists

Með honum voru og færðir til lífláts aðrir tveir, sem voru illvirkjar. Og er þeir komu til þess staðar, er heitir Golgata, það þýðir hauskúpustaður, gáfu þeir honum vín að drekka, galli blandað. Hann bragðaði það en vildi ekki drekka. Þar krossfestu þeir hann og með honum tvo aðra sinn til hvorrar handar, Jesús í miðið. Þá rættist sú ritning, er segir: Með illvirkjum var hann talinn. En það var um dagmál, er þeir krossfestu hann.

 

34.

Fyrsta orð Krists á krossinum

Þá sagði Jesús: „Faðir, fyrirgef þeim, því að þeir vita ekki, hvað þeir gjöra.“

 

35.

Yfirskriftin á krossinum

Pílatus hafði ritað yfirskrift og sett hana á krossinn. Þar stóð skrifað: JESÚS FRÁ NASARET, KONUNGUR GYÐINGA. Margir Gyðingar lásu þessa yfirskrift, því staðurinn, þar sem Jesús var krossfestur, var nærri borginni, og þetta var ritað á hebresku, latínu og grísku. Þá sögðu æðstu prestar Gyðinga við Pílatus: „Skrifaðu ekki: ,Konungur Gyðinga‘, heldur að hann hafi sagt: ,Ég er konungur Gyðinga‘.“ Pílatus svaraði: „Það sem ég hef skrifað, það hef ég skrifað.“

 

36.

Skiptin á klæðum Krists

Þegar hermennirnir höfðu krossfest Jesú, tóku þeir klæði hans og skiptu í fjóra hluti, og fékk hver sinn hlut. Þeir tóku og kyrtilinn, en hann var saumlaus, ofinn í eitt ofan frá og niður úr. Þeir sögðu því hver við annan: „Rífum hann ekki sundur, köstum heldur hlut um, hver skuli fá hann.“ Svo rættist ritningin: Þeir skiptu með sér klæðum mínum og köstuðu hlut um kyrtil minn. Þetta gjörðu hermennirnir, sátu þar svo og gættu hans. Fólkið stóð og horfði á.

 

37.

Annað orð Krists á krossinum

En hjá krossi Jesú stóðu móðir hans og móðursystir, María, kona Klópa, og María Magdalena. Þegar Jesús sá móður sína standa þar og lærisveininn, sem hann elskaði, segir hann við móður sína: „Kona, nú er hann sonur þinn.“ Síðan sagði hann við lærisveininn: „Nú er hún móðir þín.“ Og frá þeirri stundu tók lærisveinninn hana heim til sín.

 

38.

Kristur smánaður á krossinum

Þeir, sem fram hjá gengu, hæddu hann, skóku höfuð sín og sögðu: „Svei, þú, sem brýtur niður musterið og reisir það á þrem dögum! Bjarga nú sjálfum þér, og stíg niður af krossinum.“ Eins gjörðu æðstu prestarnir gys að honum og fræðimennirnir og sögðu hver við annan: „Öðrum bjargaði hann, sjálfum sér getur hann ekki bjargað. Hann er konungur Ísraels, stígi hann nú niður af krossinum, þá skulum vér trúa á hann. Hann treystir Guði. Nú ætti Guð að frelsa hann, ef hann hefur mætur á honum. Eða sagði hann ekki: ,Ég er sonur Guðs‘?“ Eins hæddu hann hermennirnir, komu og báru honum edik og sögðu: „Ef þú ert konungur Gyðinga, þá bjargaðu sjálfum þér.“

 

39.

Iðrun ræningjans

Annar þeirra illvirkja, sem upp voru festir, hæddi hann og sagði: „Ert þú ekki Kristur? Bjargaðu sjálfum þér og okkur!“ En hinn ávítaði hann og sagði: „Hræðist þú ekki einu sinni Guð, og ert þó undir sama dómi? Við erum það með réttu og fáum makleg gjöld fyrir gjörðir okkar, en þessi hefur ekkert illt aðhafst.“ Þá sagði hann: „Jesús, minnst þú mín, þegar þú kemur í ríki þitt!“

 

40.

Þriðja orð Krists á krossinum

Og Jesús sagði við hann: „Sannlega segi ég þér: Í dag skaltu vera með mér í Paradís.“

 

41.

Fjórða orð Krists á krossinum

Á hádegi varð myrkur um allt land til nóns því sólin missti birtu sinnar. Og á nóni kallaði Jesús hárri röddu: „Elóí, Elóí, lama sabaktaní!“ Það þýðir: Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig? Nokkrir þeirra, er hjá stóðu, heyrðu þetta og sögðu: „Heyrið, hann kallar á Elía!“

 

42.

Fimmta orð Krists á krossinum

Jesús vissi, að allt var þegar fullkomnað. Þá sagði hann, til þess að ritningin rættist: „Mig þyrstir.“ Þar stóð ker fullt af ediki. Jafnskjótt hljóp einn þeirra til, tók njarðarvött og fyllti ediki, stakk á reyrstaf og gaf honum að drekka. Hinir sögðu: „Sjáum til, hvort Elía kemur að bjarga honum.“

 

43.

Sjötta orð Krists á krossinum

Þegar Jesús hafði fengið edikið, sagði hann: „Það er fullkomnað.“

 

44.

Sjöunda orð Krists á krossinum

Þá kallaði Jesús hárri röddu: „Faðir, í þínar hendur fel ég anda minn.“

 

45.

Andlát Jesú

Þá hneigði hann höfuðið og gaf upp andann.

 

46.

Teiknin við dauða Krists

Þá rifnaði fortjald musterisins í tvennt, ofan frá og niður úr, jörðin skalf og björgin klofnuðu, grafir opnuðust og margir líkamir helgra látinna manna risu upp. Eftir upprisu Jesú gengu þeir úr gröfum sínum og komu í borgina helgu og birtust mörgum. Þegar hundraðshöfðinginn og þeir sem með honum gættu Jesú, sáu landskjálftann og atburði þessa, hræddust þeir mjög og sögðu: „Sannarlega var þessi maður sonur Guðs.“ Og fólkið allt, sem komið hafði saman að horfa á, sá nú, hvað gjörðist, og barði sér á brjóst og hvarf frá.

 

47.

Kunningjar Krists álengdar

En vinir hans allir stóðu álengdar og horfðu á, meðal þeirra María Magdalena, María, móðir þeirra Jakobs yngra og Jóse, og Salóme. Þær höfðu fylgt honum og þjónað, er hann var í Galíleu. Þar voru margar aðrar konur, sem höfðu farið með honum upp ti1 Jerúsalem.

 

48.

Síðusár Krists

Nú var aðfangadagur, og til þess að líkin væru ekki á krossunum hvíldardaginn, báðu Gyðingar Pílatus að láta brjóta fótleggi þeirra og taka líkin ofan, enda var mikil helgi þess hvíldardags. Hermenn komu því og brutu fótleggi þeirra, sem með honum voru krossfestir, fyrst annars, svo hins. Þegar þeir komu að Jesú og sáu, að hann var þegar dáinn, brutu þeir ekki fótleggi hans. En einn af hermönnunum stakk spjóti sínu í síðu hans og rann jafnskjótt út blóð og vatn. Sá er séð hefur, vitnar þetta, svo að þér trúið líka og vitnisburður hans er sannur. Og hann veit, að hann segir satt. Þetta varð til þess, að ritningin rættist: „Ekkert bein hans skal brotið.“ Og enn segir önnur ritning: „Þeir munu horfa tiI hans, sem þeir stungu.“

 

49.

Greftran Krists

Maður er nefndur Jósef, auðugur maður frá Arímaþeu, borg í Júdeu. Hann var ráðsherra, góður maður og réttvís og hafði ekki samþykkt ráð þeirra né athæfi. Hann var lærisveinn Jesú, en á laun af ótta við Gyðinga. Hann dirfðist að fara inn til Pílatusar og biðja um líkama Jesú. Pílatus furðaði á, að hann skyldi þegar vera andaður. Hann kallaði til sín hundraðshöfðingjann og spurði, hvort hann væri þegar látinn. Og er hann varð þess vís hjá hundraðshöfðingjanum, gaf hann Jósef líkið. Jósef tók hann síðan ofan og sveipaði línklæði. Þar kom líka Nikódemus, er fyrr hafði komið til Jesú um nótt, og hafði með sér blöndu af myrru og alóe, nær hundrað pundum. Þeir tóku nú líkama Jesú og sveipuðu hann línblæjum með ilmjurtunum, eins og Gyðingar búa lík til greftrunar. En á staðnum, þar sem hann var krossfestur, var grasgarður og í garðinum ný gröf, sem Jósef átti og hafði látið höggva í klett. Hafði enginn verið áður lagður í hana. Þar lögðu þeir Jesú, því það var aðfangadagur Gyðinga, og gröfin var nærri, og veltu síðan stórum steini fyrir grafarmunnann og fóru burt. Þar voru og konur, sem álengdar horfðu á, þær höfðu fylgt Jesú frá Galíleu og þjónað honum. Meðal þeirra var María Magdalena, María móðir þeirra Jakobs yngra og Jóse, og Salóme. Þær sáu, hvar hann var lagður. Þær sneru aftur og bjuggu ilmjurtir og smyrsl. Hvíldardaginn héldu þær kyrru fyrir samkvæmt boðorðinu.

 

50.

Varðmenn við gröf Krists

Næsta dag, daginn eftir aðfangadag, gengu æðstu prestarnir og farísearnir saman fyrir Pílatus og sögðu: „Herra, vér minnumst þess, að svikari þessi sagði í lifanda lifi: ,Eftir þrjá daga rís ég upp.‘ Bjóð því, að grafarinnar sé vandlega gætt allt til þriðja dags, ella gætu lærisveinar hans komið og stolið honum og sagt fólkinu: ,Hann er risinn frá dauðum.‘ Þá verða síðari svikin verri hinum fyrri.“ Pílatus sagði við þá: „Hér hafið þér varðmenn, farið og búið svo tryggilega um sem best þér kunnið.“ Og þeir fóru og gengu tryggilega frá gröfinni og innsigluðu steininn með aðstoð varðmannanna.